Fara í efni

Prófaðu fjölbreytileika hamborgara á tvöföldum kosningadegi!

12.05.2022

Við elskum að grilla á tyllidögum og þeir gerast nú varla stærri en laugardagurinn sem verður tvöfaldur tyllidagur þar sem við fáum að kjósa tvisvar, fyrst í sveitarstjórnarkosningum og svo í Eurovision.

Á þessum degi sjáum við lýðræði og fjölbreytni að verki. Fjölbreyttir frambjóðendur sem bítast um efstu sætin í hverju sveitarfélagi leggja verk sín eða fyrirætlanir í dóm kjósenda. Síðar um kvöldið sjáum við svo glöggt hvernig við getum sjálf verið í algjörum minnihluta með okkar tónlistarsmekk þegar þjóðir Evrópu greiða uppáhaldslögum sínum atkvæði. Á laugardag ræður meirihlutinn og þá er eins gott að fjölbreytnin fái að ráða.

Við fögnum því fjölbreytninni sem er í boði á laugardaginn með uppskrift að "fjölbreytileika hamborgurum" sem að sjálfsögðu eru framreiddir í gómsætu kartöfluhamborgarabrauði frá Myllunni. Þessir hamborgarar munu slá í gegn hjá gestunum og setja rétta tóninn fyrir nótnaveisluna um kvöldið og opna fyrir gott kosningapartí fyrir þá sem vilja halda áfram á vel fóðruðum maga.

Hér er uppskriftin og það er eins gott að hafa smá tíma aflögu til að gleðja gestina með þessum hamborgurum, því til að vera fjölbreyttir þá er mikið af hráefnum í þeim:

Uppskriftin er fyrir 4

Karmeliseruð lauk- og tómatsulta:

2 matskeiðar ólífuolía
1 rauðlaukur, sneiddur fínt
2 hvítlauksrif, söxuð
4 tómatar, sneiddir fínt
3 matskeiðar balsamic gljái
Smá af hágæðasalti 

Nammibeikon:

8 sneiðar af beikoni
1 teskeið af hvítlauksdufti
1 teskeið af reyktri papriku
1 teskeið af chili flögum (kryddi)
1 teskeið af nýmöluðum pipar
60 ml af púðursykri

Ostablanda:

100 grömm af blámygluosti (ef ykkur mislíkar hann þá má setja minna af blámygluosti og meira af cheddar)
60 grömm af grískri jógúrt eða majónesi
60 grömm af söxuðum graslauk

Nú er tímabært að fá sér sopa því flestir finna munnvatnið streyma fram á þessum tímapunkti...

4 kartöfluhamborgarabrauð frá Myllunni, þessi í bláu pokunum!
4 hamborgarabuff að eigin vali, helst með háu fituinnihaldi
Súrar gúrkur eru alltaf góðar og það má endilega bæta þeim við
1 salathaus að eigin vali

Aðferðin er eftirfarandi...

  1. Forhitið ofninn í í 220 gráður á undir og yfirhita (ekki á blæstri). Athugið, ef þið viljið hafa franskar kartöflur með þá er ágætt að skutla þeim í ofninn á eftir beikoninu.
  2. Blandið saman í skál öllu fyrir nammibeikonið.
  3. Setjið beikonið á bökunarpappír og dreifið blöndunni yfir beikonið.
  4. Bakið í 15 mínútur eða þangað til bekonið er gullið og stökkt, ekki of stökkt samt.
  5. Leyfið beikonu að kólna.
  6. Setjið næst pönnu á hellu á lágan eða miðlungs hita með smá ólífuolíu á. Bætið við öllum hráefnunum fyrir karmeliseruðu lauk- og tómatsultuna. Hrærið allan tímann í svona 20 mínútur á meðan þetta er mýkt, látið ekki brenna. Þegar laukurinn er farinn að líkjast sultu er tímabært að taka pönnuna af hellunni og leyfa þessu að kólna.
  7. Ostablöndunni er blandað saman.
  8. Þá stendur ekkert í vegi fyrir því að kveikja undir grillinu, forgrilla hamborgarabrauðin, skella svo buffunum á, snúa þeim þegar safinn byrjar að koma í gegn, setja þá ostablönduna yfir og leyfa að bráðna.

Bingó - það verður ekki arða eftir á disknum eftir þetta. Prófið að para hamborgarana með súrum drykkjum eins og yusúlaði, óáfengu chardonnay eða áfengum súrbjór.