Fara í efni

Allar beyglur komnar aftur í framleiðslu

20.01.2023

Í tilefni af því að íslensku beyglurnar okkar eru komnar aftur í verslanir ætlum við að koma reglulega fram með hugmyndir sem tengjast beyglunum og fjölbreytileika þeirra. Við erum að tala um hugmyndabanka sem tekur tillit til margvíslegra þarfa allra fjölskyldumeðlima, því eðlilega er smekkur fólks misjafn. Auk þess jafnast fátt á við nýjar hugmyndir að einföldum og bragðgóðum beyglu uppskriftum.

Við byrjum á því að koma með hugmyndir fyrir börnin á heimilinu því oft þarf að huga vel að því hvaða valkostir eru spennandi í þeirra huga og hvað lítur vel og girnilega út. Við verðum í sætari kantinum að þessu sinni og horfum helst til tyllidaga en þá er tilvalið að gera vel við börnin okkar.

Eitt sem við bendum alltaf á þegar verið er að bjóða upp á beyglur er að nota alls ekki beitt áhald þegar verið er að aðskilja helmingana. Best er að þíða beygluna við stofuhita í 20-30 mínútur eða lengur áður en helmingarnir eru aðskildir og beyglan ristuð. Einnig er hægt að setja beygluna í örbylgjuofn á affrystistillingu í sirka 20 sekúndur (misjafnt eftir ofnum).

Beygla með hnetusmjöri og sultu.

Hugmyndir fyrir beyglur með kanil og rúsínum:

Hnetusmjör og sulta

  • Smyrjið þykku lagi af stökku hnetusmjöri yfir ristaðan beygluhelminginn og smyrjið svo eftirlætis sultu barnsins yfir og berið strax fram. Gott er að hafa nóg af servíettum eða handþurrkum til staðar.

Möndlusmjör og bananasneiðar með kókósflögum

  • Smyrjið vel af möndlusmjöri yfir ristaðan beygluhelminginn og toppið með bananasneiðum. Í lokin er kókosflögunum stráð yfir.

Beygla með Nutella kremi og jarðarberjum.

Hugmyndir fyrir fínar beyglur:

Nutella krem og jarðarber

  • Smyrjið Nutella kreminu yfir ristaðan beygluhelminginn og dreifið niðurskornum jarðarberjum yfir. Fyrir þá allra sætustu á heimilinu er góð viðbót á tyllidögum að strá smá flórsykri yfir.

Banani, kíví og kanilsykur

  • Smyrjið ristaðan beygluhelminginn með íslensku smjöri og dreifið banana- og kívísneiðunum yfir. Það er fullkomin viðbót um helgar að strá kanilsykri yfir.

 

Hugmyndir fyrir beyglur með hörfræjum, sesam og birki:

Spægipylsa, ostur, gúrka og paprika

  • Smyrjið íslensku smjöri yfir ristaðan beygluhelminginn og dreifið spægipylsunni yfir. Setjið næst ostinn yfir og í lokin gúrkuna og paprikuna. Við mælum með litríkri útgáfu af þessari beyglu til að gleðja augun en þá eru rauðar, gular og appelsínugular paprikur notaðar.

Mascarpone ostur, hunangsskinka og gúrkusneiðar

  • Smyrjið Mascarpone ostinum yfir ristaðan beygluhelminginn, leggið hunangsskinkuna ofan á og svo er gúrkusneiðunum dreift yfir. Við hjá Myllunni höfum reyndar heyrt að það sé ótrúlega góð viðbót að sáldra yfir smávegis af „Everything bagel“ kryddinu.

 Njótið!