Fara í efni

Almennir fróðleiksmolar um samlokubrauð

26.08.2022

Stór hluti fyrirspurna sem við fáum snýr að geymslu á brauði og hve lengi það endist. Nú erum við að tala almennt um brauð, ekki tiltekna tegund, en almennt má segja að dagstimplar brauðs á Íslandi séu fremur stuttir miðað við það sem tíðkast erlendis þar sem rotvarnarefni eru notuð til að tryggja mjög langa endingu samlokubrauðs. Algengur dagstimpill er 3-4 dagar á Íslandi en erlendis er algengt að sjá 7 daga dagstimpil eða meira.

Með því að frysta brauð er hægt að geyma það mun lengur ef það er rétt fryst. Mikilvægt er að frysta það í sneiðum og í lofttæmdum poka. Þannig getur brauð geymst við góðar aðstæður í allt að 6 mánuði. Best er að frysta brauð sem hraðast, á -18 gráðum eða meira. Ef brauð er enn volgt þá er mikilvægt að leyfa því að kólna alveg niður áður en það er fryst. Hugið einnig að því að best er að frysta brauðið í umbúðunum sem það kemur í frá okkur, aðrir plastpokar geta verið of þunnir og þá þornar brauðið við frystingu.

Við fáum líka oft spurningar um hvernig eigi að geyma brauðið. Stutta svarið þar er að best er að geyma brauð í plastpokanum sem það kemur í og eftir að pokinn hefur verið opnaður er gott að passa að lofttæma pokann sem best (án þess þó að pressa brauðið saman). Brauðkassar eru til að mynda ekki mjög hentugir fyrir samlokubrauð því rakinn í brauðinu gufar upp og sterkja brauðsins breytist einnig. Það gerist hraðast á lágu hitastigi, 2-3 gráðum, og því er mikilvægt að geyma til dæmis aldrei brauð í ísskápnum.

Eðli málsins samkvæmt fáum við líka spurningar um hvernig er best að afþíða brauð. Í stuttu máli er best að leyfa því að þiðna við stofuhita. Brauðið mun bragðast eins og það sé ferkst en því miður þá missir skorpann stökkleikann þegar brauð er fryst og svo þítt. Ein leið til að fá skorpu aftur er auðvitað að rista brauðið og það má mjög gjarnan setja frosnar brauðsneiðar beint í brauðristina.