Fara í efni

Bakarinn berst fyrir brauðinu

27.11.2018

Bakaraiðnin er sennilega ein elsta iðn mannsins enda hefur brauð verið bakað með reglulegum hætti í að minnsta kosti 7500 ár og jafnvel svo lengi sem frá steinöld. Þannig má gera ráð fyrir því að fólk hafi þrasað um kosti fíns brauðs og grófs í fleiri þúsundir ára enda gerir fólk það enn þó Myllan bjóði að sjálfsögðu brauð fyrir smekk hvers og eins. Meginatriðið er þó að lífsins brauð er nauðsyn nú sem fyrr.

Siðmenningin byggir á brauði
Barátta bakarans fyrir brauðinu hefur því verið löng og ströng. Bakarinn og bóndinn sem útvegar bakaranum kornið, hafa þurft að verja kornið fyrir pestum og plágum frá örófi alda. Sá og uppskera þarf, ár eftir ár, en uppskera þessi og geymsluþolið eru mögulega á meðal helstu skýringa fyrir því að siðmenningin komst á laggirnar.

Grundvöllur siðmenningarinnar var að miklu leiti sá matur sem hægt var að geyma yfir vetrarmánuði svo hægt væri að draga fram lífið og sinna jafnvel öðrum hlutum en eingöngu mataröflun. Brauð var á meðal þeirrar fæðu þar sem kornið geymdist vel og hægt var að baka dýrindis brauð allan veturinn, ef nóg var til af korni.

Í Forn-Egyptalandi voru fyrstu bakaríin þannig að fólk gat komið þangað með sitt eigið brauðdeig, hefað eða óhefað, og bakað það eða jafnvel keypt tilbúið bakað brauð. Góður forði korns fyrir veturinn gat þannig skipt sköpum.

Svo snemma sem 168 e.k. er talið að fyrsta félag bakara hafi verið stofnað, þá í Róm, og var það sérstakt fyrir þær sakir að það var fyrir einu iðnstéttina þar sem þrælar sinntu ekki öllum störfum, bakarar voru nefnilega frjálsir menn og virtir sem slíkir.

Iðnbyltingin breytir landslaginu
Þannig hefur brauð verið bakað á hefðbundinn hátt öldum saman af bökurum þangað til að iðnbyltingin gjörbreytti allri tækni með gufuknúnum vélum. Nýja tæknin þýddi að myllurnar, eins og sú sem Myllubrauðin eru nefnd eftir, hurfu nánast eins og dögg fyrir sólu. Frá 1850 til 1880 var t.d. nánast öllum myllum Bretlands leyft að hrörna og verða að engu, myllum sem höfðu þjónað þegnum landsins sumar hverjar í nokkur hundruð ár. Enn sjást þó víða myllur á meginlandinu til minnis um starfssemi bakara eins og hún var stunduð nánast óbreytt frá örófi alda.

Í eina tíð stóð mylla í Bankastræti í Reykjavík og malaði korn í brauð fyrir Reykvíkinga. Sú mylla var rifin árið 1902. Myllubrauð færðu þó ávallt út í næstu verslun, hvort sem þú vilt gróft eða fínt, hvítt eða dökkt... bakararnir berjast því fyrir brauðinu nú sem fyrr.