Fara í efni

Gerðu einstakar grillsamlokur sem slá í gegn!

11.08.2022

Síðustu uppskriftirnar okkar með djörfum pylsuuppskriftum fengu góðar undirtektir þannig við ákváðum að horfa enn lengra og velta því fyrir okkur hvað væri hægt að gera með góðu samlokubrauðunum okkar. Margir eru vanir að borða þau á hverjum degi, smyrja sér jafnvel nesti og langar því vafalaust að dýfa litlu tá í fjölbreytileikann og sjá hvort það komi ekki eitthvað nýtt uppáhalds úr því.

Við lofum ykkur því að nú verður djarft spilað en þó ætlum við að reyna að hafa þetta þannig að það sé ekki meiriháttar mál að gera þessar samlokur enda eiga samlokur einmitt að ganga út á það að vera auðveldar og þægilegar. Það er því ein sem er örlítið flóknari og ein sem fislétt.

Fyrri grillsamlokan sem við leggjum til að þið prófið er lúxus ostasamloka. Eins og gefur að skilja tekur hún smá tíma, því auðvitað tekur allur lúxus smá tíma - annars væri það ekki lúxus :-)

Byrjum á því að bræða dálítið af smjöri, þrjár til fjórar vænar klípur á lítilli pönnu á lágum til miðlungs hita. Út í það fer fínt saxaður skalottulaukur. Hrærið á meðan þetta mýkist í um eina mínútu og passið að þetta brúnist ekki. Bætið þá við 100 grömmum af smátt söxuðum sveppum, smá timían og hvítvínsskvettu. Sjóðið niður þangað til engin vökvi er eftir. Þá má setja smá truffluolíu yfir ef þið eruð hrifin af henni og auðvitað salt og pipar.

Á meðan blandan kólnar þá raðið þið Cheddar osti á tvær Heimilisbrauðsneiðar, svo setjið þið sveppina á þegar þeir eru orðni aðeins kaldari, og síðast fer Brie ostur yfir áður en samlokunni er lokað með seinni brauðsneiðinni.

Þá er lokatrixið eftir. Við grípum aftur í pönnuna, bræðum nokkrar smjörklípur til viðbótar á miðlungslágum hita og svo setjið þið samlokuna í miðjuna þangað til hún er orðin gullinbrún undir en það ætti að taka um það bil 3-4 mínútur. Þetta er samt ekki búið enn því næst má setja rifinn Cheddar ost beint á pönnuna og strax á eftir setjið þið óbrúnuðu hlið samlokunnar niður á ostinn á pönnunni. Þetta tekur aðrar 3-4 mínútur en þið þurfið að vera snögg að koma brauðinu á ostinn á pönnunni.

Skerið samlokurnar horn í horn, setjið smá timían yfir á ný og saltið. Bingó!

Seinni grillsamlokan er miklu minna vesen en engu minna spennandi en lúxus ostasamlokan því hún er eitthvað sem krakkarnir gætu elskað að borða með þeim fullorðnu. Það er grillsamloka með bökuðum baunum! Þessi er ofur einföld því það eina sem hún krefst er hálf dós af uppáhalds tegundinni þinni af bökuðum baunum, slatti af rifnum Cheddar osti eða um 200 grömm og smá smjör og krydd. Þú semsagt smyrð brauðsneiðarnar á annarri hliðinni, þeirri sem mun snúa annars vegar upp og hinsvegar niður í samlokugrillinu þegar þú lokar samlokunni. Svo rífurðu ostinn og hrærir honum saman við hálfa dósina af bökuðu baununum. Þessu smyrðu svo þykkt yfir neðri brauðsneiðina. Það er fínt að gera það meðan þú hitar samlokugrillið. Svo kryddarðu með paprikukryddi og helling af pipar og lokar svo með efri brauðsneiðinni og skellir í samlokugrillið. Afar auðvelt og mjög ljúffengt!