Fara í efni

Græna jólatertan vinsælust en í öðru sæti er?

14.10.2022

Nú styttist heldur betur í dag jólatertunnar en hann er mánudagurinn 24. október. Við getum svosem látið það fljóta með hér (þið heyrðuð það fyrst hér) að það verður byrjað að aka tertunum í allri sinni litaflóru í verslanir helgina áður. Dagur jólatertunnar er hinsvegar sá sem við fögnum mest, 24. október, með stíl og þá er við hæfi að taka frá gæðastund til að njóta vænnar sneiðar af uppáhalds jólatertunni sinni með því sem þér finnst passa best að drekka með.

Við hentum af þessu tilefni í óformlega könnun á vinsældum jólatertunnar og niðurstöðurnar komu kannski ekki sérlega á óvart, ef til vill vegna þess að græna jólatertan nýtur mikils fylgis á Facebook hópnum Vinir Grænu jólatertunnar. Það er þó auðvitað líka í takt við raunverulega vinsældir í verslunum því eins og má sjá á næstu dögum þá er alltaf töluvert meira af þeirri grænu í verslunum.

Í hinni óformlegu könnun sem við gerðum á Facebook voru niðurstöðurnar eftirfarandi:

Græna er uppáhalds 47% kjósenda.
Í öðru sæti er sú rauða sem kann að koma einhverjum á óvart en hún hlaut 21% atkvæða.
Í þriðja sæti kemur sú hvíta en 19% meta hana mest af öllum.
Og loks er það sú bláa sem 13% eru hrifnust af.

Ekki var skoðað sérstaklega hver okkar eru fjölkær og elska allar jólaterturnar jafnt en sá hópur var ansi stór líka.

Við hleruðum líka aðeins hvað fólk vildi drekka með jólatertunni sinni og það var alveg ljóst að ískalt mjólkurglas var þar lang vinsælast.