Fara í efni

Borgarinn frá Hamborg

13.08.2019

Nafnið hamborgari á rætur að rekja til Hamborgar í Þýskalandi og barst til Bandaríkjanna með evrópskum innflytjendum. Heimagerður hamborgari getur verið fyrirtaksmáltíð, sérstaklega ef gætt er að magni fituríkrar og næringarsnauðrar sósu á borgarann.

Það eru fleiri en ein kenning um uppruna hamborgarans, en þeim ber saman um að vegna legu Hamborgar og mikilvægi sem hafnarborgar, hafi ýmis konar matarmenning borist þangað víða að. Þar á meðal hafði fest sig í sessi steik úr hökkuðu kjöti sem kölluð var „Hamburg steak“. Rétturinn barst til meðal annars til New York og þar voru settir upp básar sem seldu kjötrétt sem eldaður var „eins og í Hamborg“.  Það var þó ekki fyrr en löngu síðar þegar krafa um fljótlegan matarbita hafði skapað hamborgarann eins og við þekkjum hann í dag, kjöt í brauðbollu með sósu og meðlæti.

Hamborgarinn er vinsæll um allan heim og hefur fengið á sig óhollustuorðspor, en það er þó mikill misskilningur að hamborgari verði að vera óhollur. Auðvelt er að bjóða fram úrvalshamborgara sem færu beint í gegnum nálarauga næringarfræðina.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að nota úrvalskjöt sem inniheldur ekki meira en ca. 10% fitu. Svo má blanda lauk og kryddi við hakkið áður en borgararnir eru mótaðir. Að sjálfsögðu á að vera fullt af grænmeti á borgaranum og svo einhvers konar léttari sósa en tíðkast á skyndibitastöðunum.

Til að mynda er mjög gott að blanda saman hreinni jógúrt eða AB-mjólk, sýrðum rjóma, sætu sinnepi, dijon sinnepi og smá ferskum hvítlauk. Ef kokteilsósan er ómissandi þá er um að gera að „heilsa hana upp“ með því að nota sýrðan rjóma í stað majoness, eða jafnvel kotasælu. Svo má baka sætkartöflu“franskar“ með eða gera gott salat í staðinn fyrir frönsku kartöflurnar.

Svona má leika sér með hráefni og búa til hollari útgáfu af hamborgaranum, sem hefur jú verið í einhvers konar þróun frá upphafi. Að lokum er öllu skellt á mjúk og ljúffeng Myllu hamborgarabrauð og borðað með bros á vör!

Myllu hamborgarabrauðin eru að sjálfsögðu vegan en við bjóðum einnig upp á Lífskornabollur með heilu hveitikorni og rúgi og Lífskornabollur með tröllahöfrum og chia fræjum sem eru tilvalin sem hollari kostur að ljúffengum lúxushamborgara. Skoðaðu úrvalið okkar af hamborgarabrauðum hér.