Fara í efni

Heimagerður brauðraspur

11.03.2024

Að minnka eða koma í veg fyrir matarsóun hefur í för með sér jákvæðan ávinning. Það dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, dregur úr auðlindanýtingu, eykur fæðuöryggi, dregur úr myndun úrgangs, styður við líffræðilega fjölbreytni og sparar pening í heimilisbókhaldinu.

Ástæða þess að við hjá Myllunni viljum skrifa um matarsóun er sú að reglulega kemur það upp hjá neytendum Myllubrauða að brauðið klárast ekki áður en það rennur út. Til að minnka matarsóun er óþarfi að láta brauð fara til spillis og henda því.

Okkur finnst tilvalið að koma fram með einfalda og hagkvæma uppskrift af brauðraspi. Þannig getur þú búið til brauðrasp úr afgangsbrauði og spornað enn frekar við matarsóun.

Heimagerður brauðraspur

Heimagerður brauðraspur

Þú getur notað hvaða brauð sem er þegar þú býrð til brauðrasp. Það er meira að segja er hægt að nota rúnstykki eða snittubrauð. Það er góð leið að leyfa brauðinu að þorna alveg og skera það gróft niður og setja á smjörpappír inn í 180 gráður heitan ofn (blástursofn) í u.þ.b. fjórar mínútur og leyfa svo brauðmolunum að kólna.

Þegar brauðmolarnir hafa kólnað getur verið frábær viðbót fyrir bragðlaukana að bæta við smá paprikukryddi og setja þá svo í hræri- eða matvinnsluvél á fullan kraft eða þar til molarnir verða að mylsnu. Þú getur notað mylsnuna næst þegar þú bakar brauð, gerir pizzadeig eða ferskt pasta með því að blanda mylsnunni saman við. Svo er ekkert mál fyrir þig að geyma raspinn í lofttæmdu boxi eða poka.