Fara í efni

Hvað er vinsælast að drekka með jólatertunni?

21.10.2022

Jæja, það styttist óðum í dag jólatertunnar en hann er 24. október ár hvert. Við stelumst reyndar til að byrja á því að aka jólatertunum í verslanir núna um helgina og það er því alveg hægt að taka smá forskot á sæluna.

En, það má samt ekki flýta sér of mikið að þessu. Það þarf nefnilega að njóta fyrsta bitans og þess vegna þarf að huga vel að öllu tilstandi og hafa uppáhalds drykkinn tilbúinn með.

Af því tilefni spurðum við unnendur jólatertunnar hjá okkur hvað þau vildu helst drekka með jólatertunni og niðurstöðurnar koma ef til vill ekki mikið á óvart, og þó.

Vinsælast er að drekka ískalda mjólk með jólatertunni. Það er enginn vafi á því þar sem 48% kusu mjólkina með uppáhalds jólatertunni. Í öðru sæti var rjúkandi heitt kaffi en það voru 25% sem helst kjósa kaffi með jólatertunni. Næst kemur svo heitt súkkulaði en það voru 13% sem vilja það, með vænni slummu af þeyttum rjóma. Ekkert af þessu kemur mjög á óvart hinsvegar en bersýnilegt er að mjólk virðist vera vinsælli með brúnu jólatertunum en þeim hvítu sem henta hugsanlega betur með kaffinu. Þá röðustu sirka 5% niður á kakó, Malt & Appelsín eða annað. Ef við færum kakóið undir heita súkkulaðið þá slaga vinsældir þess hátt í kaffið.

Það sem kemur þó á óvart er að áfengir drykkir njóta engra vinsælda en víða erlendis er einmitt vinsælt að drekka púrtvínsstaup eða örlítið freyðivín með jólatertum. Freyðivínið sem fæst óáfengt í dag er ekki mikið síðra en það áfenga, vilji einhver prófa. Það er hinsvegar gleðilegt að sjá að óáfengu kostirnir eru svona vinsælir.

Nú styttist í að fyrsta sneiðin verði skorin fyrir þennan vetur. Við vonum því að þú og þínir njótið hennar alveg í botn.