Fara í efni

Launum gott með góðu!

04.10.2016

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Af því tilefni verða Lífskornabollur Myllunnar með tröllahöfrum og chia-fræjum settar í bleikan búning. Varan er sú sama, verðið er óbreytt en 20% af söluverðinu rennur til átaksins Bleiku slaufunnar.

Tilgangur Bleiku slaufunnar er að vekja athygli á krabbameinum hjá konum og er átakið tileinkað brjóstakrabbameini í ár. Bleiki dagurinn verður haldinn 14. október næstkomandi en hann hefur notið sívaxandi vinsælda undan farin ár. Þennan dag eru allir landsmenn hvattir til að sýna samstöðu, klæðast bleiku og hafa bleikt í fyrirrúmi.

Það er áfall að greinast með krabbamein og óttinn við það er mikill. Árveknisátakið Bleika slaufan hefur það að markmiði að fjölga þeim sem fara í reglubundna leit að brjóstakrabbameini. Rannsóknir sýna að greinist krabbameinið snemma aukast lífslíkur um 40%. Leit að brjóstakrabbameini stendur öllum konum á aldrinum 40-69 ára til boða og það ættu allar konur að nýta.

Við hvetjum alla til að kaupa Bleiku slaufuna. Hana má kaupa á netinu eða á fjöldamörgum sölustöðum. Hér má finna lista yfir sölustaði í nágrenni við þig.

Lífskornabollurnar hafa verið vinsælar frá því þær komu á markað og hafa bollurnar með tröllahöfrum og chia-fræjum sannarlega slegið í gegn. Þessar gómsætu bollur eru merktar með Skráargatinu, merki sem ætlað er að gera neytendum auðveldara að velja hollari matvöru. Það þýðir að Lífskornabollurnar eru hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla þau skilyrði sem þarf til að bera merkið.

Gríptu með þér poka af gómsætum Lífskornabollum með tröllahöfrum og chia-fræjum og láttu gott af þér leiða.