Fara í efni

Satt og rangt um repjuolíu

02.05.2024

Í heilsustefnu Myllunnar kemur fram að Myllan hefur lengi verið brautryðjandi í þróun og framleiðslu á heilnæmum bökunarvörum á íslenskum markaði. Hugsjón okkar er að framleiða vörur út frá hreinni náttúru og í hæsta gæðaflokki, en öll hráefni Myllunnar eru valin út frá gæðum. Við bjóðum upp á úrvals heilkornavörur þar sem meðal annars má finna góða uppsprettu af vítamínum, trefjum og heilnæmum fitusýrum sem stuðla að góðri meltingu og minnka líkur á sjúkdómum. Við leggjum okkur fram við að gera enn þá betur með markvissum aðgerðum til að neytendur okkar geti gengið að því vísu að fá bestu og hollustu vörurnar hverju sinni og erum þ.m.t. með frábært úrval af vörum merktum Skráargatinu. Við fylgjumst einnig grannt með þróun erlendis, niðurstöðum rannsókna og nýjungum frá birgjum á sviði heilsu og næringar.

Greinum rétt frá röngu

Á netinu er að finna margvíslegar upplýsingar um ágæti ýmissa fæðutegunda, en oft geta þessar upplýsingar verið misvísandi. Undanfarin ár hefur þótt vinsælt að útiloka ákveðin innihaldsefni, jafnvel fæðuflokka, á grundvelli heilnæmis og næringar, en þegar betur er að gáð eru þessi innihaldsefni ekki bara skaðlaus heldur líka heilsueflandi. Repjuolía er fræolía og hefur verið mikið til umræðu, en hún er afar vinsæl til matargerðar og býr yfir mörgum kostum. Þó hefur hún verið til umræðu á samfélagsmiðlum sem óholl matvara. Við viljum nýta tækifærið og fara yfirrangfærslur sem við höfum rekist á svo að neytendur okkar geti verið upplýstari í vali sínu á heilnæmum matvörum og meðvitaðri um að sneiða hjá röngum upplýsingum.

Rangfærsla: Repjuolía veldur hjartasjúkdómum

Þetta er ekki rétt og hefur verið afsannað í fjölda vísindalegra rannsókna. Repjuolía býr yfir lítilli mettaðri fitu miðað við aðrar matarolíur eins og t.d. pálmaolíu og er því æskilegri heilsu hjartans. Þetta er mikilvægt vegna þess að mikil neysla mettaðrar fitu er talin tengd aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Það er einnig hagstætt hlutfall af ómega-6 og -3 fitusýrum í repjuolíu, samanborið við aðrar jurtaolíur. Ómega-3 fitusýrur eru nauðsynlegar og geta haft jákvæð áhrif á bólgur og hjartaheilsu. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að ómega-6 fitusýrur, sem hafa verið sagðar óhollar hjartanu, hafa engin mælanleg áhrif á tilkomu hjartasjúkdóma, en geta þó minnkað líkur á hjartadrepi.

Það sem er hins vegar gott að hafa í huga er að margar unnar matvörur notast við fræolíur í framleiðslu, eins og franskar kartöflur og kexvörur. Þetta er haft eftir Daiush Mozaffarian, hjartalækni og yfirprófessor við næringardeild Friedman Háskóla í Boston, í grein Consumer Reports . Það eru mun fleiri innihaldsefni í þessum vörum eins og hátt hlutfall kolvetna, salts og sykurs sem gera þær mögulega skaðlegar ef þeirra er neytt í óhófi – en ekki sjálf repjuolían.  

Rangfærsla: Repjuolía inniheldur óholla fitu og er bólgumyndandi

Þetta hefur verið afsannað. Repjuolía inniheldur mikið magn einómettaðrar fitu, sem er heilbrigð tegund af fitu og getur hjálpað við að draga úr svokölluðu slæmu kólestróli, eða LDL kólestróli, í blóðinu. Einómettuð fita er talin hafa bólgueyðandi eiginleika og styðja við insúlínnæmi, sem minnkar líkur á sykursýki. Einnig er töluvert magn af E-vítamíni í repjuolíu en vítamínið er andoxunarefni sem er talið hjálpa til að vernda frumur gegn skemmdum. Sömuleiðis hefur ekki verið sýnt fram á tengsl milli inntöku ómega-6 fitusýra sem eru í repjuolíu, og krabbameins.

Rangfærsla: Ómega-6 fitusýrur í repjuolíu valda háum blóðþrýstingi

Þetta er röng staðhæfing. Þvert á móti minnka þessar fitusýrur hættuna á of háum blóðþrýstingi, samkvæmt niðurstöðum umfangsmikillar rannsóknar frá árinu 2023. Í henni kemur fram að engin fylgni er á milli þess að neyta ómega-6 fitusýra og blóþrýstingsbreytinga. 

Rangfærsla: Repjuolía er slæmur valkostur í matargerð

Þetta er rangt og repjuolía hefur verið talin ákjósanlegri en margar aðrar olíur til matargerðar. Þá er hún mjög mikilvæg í sumri matvælaframleiðslu, t.d. bakstri vegna þess að hún hefur háan reykpunkt og þolir þess vegna meiri hita en margar aðrar olíur áður en hún brotnar niður og losar við það möguleg skaðleg efnasambönd. Í bakstri stuðlar repjuolía enn fremur að varðveislu næringargæða fæðunnar. Þá hafa nýjar aðferðir við framleiðslu repjuolíu gert hana að enn betri valkosti.

Beitum gagnrýnni hugsun

Það gefur auga leið að margir geta dreift fölskum upplýsingum um næringu áfram, hvort sem það er viljandi eða óafvitandi. Það er mikilvægt að velja vel og beita gagnrýnni hugsun þegar upplýsingar um næringu eru skoðaðar, sérstaklega á samfélagsmiðlum þar sem erfitt er að greina réttar upplýsingar frá röngum. Við mælum sérstaklega með ráðleggingum um mataræði frá Landlæknisembættinu, en þar er að finna ýmis hollráð og einmitt er mælt með því að velja jurtaolíur við matargerð. Við hjá Myllunni kappkostum að fylgja nýjustu rannsóknum og ráðleggingum um mataræði við val á innihaldsefnum og bjóða neytendum okkar ávallt upp á það besta hverju sinni.