Fara í efni

Steikarbeygla fyrir bóndann þinn

22.01.2024

Bóndadagur er framundan og er hann  núna föstudaginn 26. janúar og þar með gengur þorrinn í garð samkvæmt fornu norrænu tímatali. Fyrsti dagur þorrans er nefndur bóndadagur en síðasti dagurinn er nefndur þorraþræll. Um fyrsta dag þorra, eða sjálfan bóndadaginn hafa lengi ríkt ákveðnar hefðir og skemmtilegar með eindæmum.

Samkvæmt gömlum heimildum var sú hefð meðal almennings að húsfreyjan færi út kvöldið áður og byði þorrann velkominn.

Sú hefð hefur skapast í áranna rás að gleðja bóndann á heimilinu á þessum degi með einhverjum hætti. Við hjá Myllunni teljum að það væri gaman fyrir þig að gleðja bóndann þinn með góðri uppskrift að djúsí steikarbeyglu.

Við hjá Myllunni viljum einfalda þér eldhússtörfin og veita þér ljúffenga og matarmikla uppskrift af steikarbeyglu til að gleðja á þessum degi.

Mundu bara að grípa með þér jalapeno og ostabeyglu í næstu innkaupaferð.

Steikarbeygla

Bóndadagssteikarbeygla fyrir tvo

2 stk. jalapeno og ostabeygla

400 gr. eldað nautakjöt/lambakjöt að eigin vali (má vera hvaða biti sem er)

1 ½ laukur

2 msk. íslenskt smjör

300 gr. sveppir

3 stk. hvítlauksrif

Bernaise-sósa (magn eftir smekk)

Klettasalat

1 stk. Brie ostur

Aðferð:

  1. Byrjaðu á því að taka beyglurnar úr frystinum og leyfðu þeim að þiðna í u.þ.b. 20 mínútur.
  2. Stilltu ofninn á 200 gráður (blástursofn) eða settu beyglurnar í brauðristina. Beyglurnar sem eru hitaðar í ofninum þurfa að vera í u.þ.b. 10 mínútur. Taktu beyglunar í tvennt og hitaðu í ofni, þar til beyglurnar er orðnar stökkar og gullinbrúnar.
  3. Skerðu sveppi, lauk og hvítlauk og steiktu í smjöri við meðalhita á pönnu þar til sveppurinn, laukurinn og hvítlaukurinn eru orðnir mjúkir í gegn (passaðu samt að brenna ekki laukinn). Legðu til hliðar á meðan þú undirbýrð beyglurnar.
  4. Þegar beyglurnar eru tilbúnar eru þær smurðar með Bernaise-sósu, og magn fer eftir smekk.
  5. Legðu klettasalatið yfir Bernaise-sósuna á botninn á sitthvorri beyglunni, skerðu niður kjötið í þunnar sneiðar og legðu ofan á ásamt steiktum sveppunum, lauknum og hvítlauknum.
  6. Brie osturinn er skorin í strimla og lagður ofan á. Í lokaskrefinu bætir þú við auka Bernaise-sósu og setur lokið á beyglunni yfir.