Fara í efni

Það styttist í 17. júní

11.06.2024

Nú styttist í sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní og hafa mikil hátíðarhöld fylgt þessum degi. Hjá mörgum er venjan sú að vinir og vandamenn koma saman í þjóðhátíðarkaffi, fara í skrúðgöngu eða heimsækja fjölbreytta og skemmtilega hátíðardagskrá víðsvegar um landið.

Þess vegna könnumst við flest öll við þjóðhátíðarkaffiboð og viljum við hjá Myllunni auðvelda þér fyrirhöfnina með tveimur einföldum og einstaklega bragðgóðum tertuuppskriftum sem koma til með að slá í gegn hjá bæði yngri og eldri kynslóðinni. Í þessum uppskriftum eru innihaldsefnin fá og leiðbeiningarnar einfaldar, enda tíminn í eldhúsinu oft knappur.

Vínar svampbotninn og hvíti marengsbotninn eru fullkomin tvenna

Vínar svampbotninn frá Myllunni er hentugur þegar þú ert á hraðferð og vilt spara tíma í eldhúsinu og það sama á við um hvíta marengsbotninn okkar. Báðir botnarnir eru fáanlegir í helstu verslunum. Saman geta þessir botnar skapað undarsamleg góðgæti á veisluborðið þitt í kringum hátíðarhöldin á 17. júní, en sameining þeirra getur skapað kraftaverk fyrir bragðlaukana.

Nakinn berjadraumur

1 stykki Vínar svampbotn frá Myllunni

1 stykki hvítur marengsbotn frá Myllunni

3 stykki eggjarauður

6 matskeiðar flórsykur

100 gr. suðusúkkulaði

½ l. rjómi

Súkkulaðispænir (rifið súkkulaði með rifjárni)

Hindber

Vínber

Bláber

Jarðarber

Aðferð:

 1. Byrjaðu á því að þeyta saman flórsykurinn og  eggjarauðurnar.
 2. Bræddu (í vatnsbaði) suðusúkkulaðið og helltu því saman við eggjarauðurnar og flórsykurinn og þeytið áfram.
 3. Þeyttu næst rjómann og taktu rúmlega tvær matskeiðar af honum og blandaðu saman við kremið.
 4. Skerðu berin í þá stærð sem þú vilt hafa og blandaðu saman við restina af rjómanum.
 5. Dreifðu jafnt helmingnum af kreminu á svampbotninn og ofan á kremið á að dreifa helminginn af rjómanum og dreifa jafnt úr.
 6. Legðu marengsbotninn ofan á og afganginn af rjómanum yfir hann og dreifðu jafnt með spaða.  Settu að lokum afganginn af kreminu yfir rjómann.
 7. Taktu hreinan spaða og dragðu hann meðfram hliðunum, markmiðið er að tertan sé „nakin“ á hliðunum. Það er líka hægt að sprauta rjóma á hliðarnar og þekja tertuna alveg.
 8. Áður en tertan er borin fram er tilvalið að skreyta með berjum og súkkulaðispæni.

17. júní marengsterta

3 stk. Myllu marengsbotnar  

700 ml. rjómi

4 msk. flórsykur

1 askja jarðarber

½ askja bláber

6 stk. kókosbollur

Dumle karamellusósa

1 poki Dumle karamellur

200 ml. rjómi

Aðferð:

Byrjaðu á því að búa til Dumle karamellu sósuna.

 1. Bræddu Dumle karamelluna og rjómann saman í potti við meðalháan hita þar til karamellurnar leysast upp. Það er gott að hræra vel upp í sósunni í lokin með písk.
 2. Leyfðu sósunni að ná stofuhita áður en kakan er sett saman. Það getur verið gott að setja sósuna inn í ísskáp í smá stund.
 3. Þeyttu rjómann og bættu við flórsykrinum í lokin.
 4. Kókosbollunum er bætt við rjómablönduna og hrært varlega saman.
 5. Skerðu jarðarberin í smáa bita og blandaðu 2/3 saman við rjómablönduna.

Samsetning:

 1. Settu örlítinn rjóma í miðjuna á kökudisknum og leggðu fyrsta marengsbotninn á kökudiskinn, en þetta er gert til að marengsbotninn sitji kyrr á kökudisknum. Skiptu Dumle karamellusósunni upp í u.þ.b. þrjá hluta og dreifðu 1/3 af Dumle karamellusósunni yfir botninn.
 2. Skiptu rjómanum í tvo hluta. Dreifðu fyrri hluta af rjómablöndunni yfir marengsbotninn, síðan er annar marengsbotninn lagður yfir og 1/3 af Dumle karamellusósunni er dreift yfir marengsbotninn.
 3. Dreifðu seinni hlutanum af rjómablöndunni yfir og tylltu þriðja og síðasta marengsbotninum ofan á.
 4. Dreifðu síðasta hlutanum af Dumle karamellusósunni yfir og skreyttu með restinni af jarðarberjunum og bláberjunum. Gott er að leyfa tertunni að hvíla u.þ.b. þrjár klukkustundir í ísskápnum þar til hún er borin fram.