Fara í efni

Þakkargjörðarhátíð: Kalkúnafylling með heimagerðum brauðmolum

26.11.2025

Þakkargjörðin er haldin á fimmtudaginn 27. nóvember og margir á Íslandi hafa tekið upp að halda upp á hana. Þakkargjörðin á uppruna sinn í Bandaríkjunum og Kanada, en hefðin var að þakka fyrir uppskeru ársins. Á þessum degi er oft efnt til veislu og eru Íslendingar engin undantekning. 

Þakkargjörðarhátíðin hefur fengið sinn sess í íslenskri matarmenningu. Íslendingar hafa smám saman farið að bjóða fjölskyldu og vinum í notalega kvöldmáltíð þar sem kalkúnn, ljúffengt meðlæti og góður eftirréttur eru oft á borðum. Þeir allra metnaðarfyllstu leggja svo í gerð graskersböku fyrir daginn. Fyrir marga hefur þetta orðið skemmtileg ástæða til að hittast í miðjum vetri, elda eitthvað aðeins öðruvísi og skapa hlýjar minningar með fólkinu sínu. 

Hveiti samlokubrauð, heilt

Ef þú ert að undirbúa þína eigin Þakkargjörðarveislu er fljótlegt og gott að gera heimagerða fyllingu fyrir kalkúninn. Hún verður sérstaklega góð ef brauðmolar eru gerðir frá grunni úr hveiti samlokubrauði frá Myllunni. Brauðið heldur lögun, drekkur í sig smjör og krydd og gefur fyllingunni klassískt bragð sem margir þekkja úr amerískum uppskriftum.

Heimagerð kalkúnafylling 

Hráefni

  • 1 poki Myllu hveiti samlokubrauð (10–12 sneiðar)
  • 100 g smjör
  • 1 stór laukur, saxaður
  • 3 sellerístönglar, saxaðir
  • 2–3 hvítlauksrif, pressuð
  • 1–2 tsk salvia (þurrkuð)
  • 1 tsk timían
  • 1 tsk rósmarín
  • ½ tsk svartur pipar
  • 1–1,5 tsk salt (smakka til)
  • Nokkrar beikonsneiðar (valkvætt) 
  • 3-4 dl kjúklingasoð (eftir smekk, athugaðu að fyllingin á að vera rök en ekki blaut)
  • 1 egg (má sleppa, heldur fyllingunni aðeins betur saman)

Aðferð

  1. Skerðu brauðið í litla teninga, dreifðu þeim á bökunarpappír og ristaðu í ofni við 130–140 gráður þar til molarnir eru þurrir og örlítið gullinir. Þetta getur tekið 30-40 mínútur. Láttu kólna.
  2. Bræddu smjör í potti eða á pönnu og mýktu lauk, sellerí og hvítlauk á vægum hita í 8-10 mínútur
  3. Bættu kryddunum saman við og hrærðu vel
  4. Settu brauðmolana í stórt fat eða skál og hrærðu soðblöndunni varlega saman við. Bættu smám saman við soði 
  5. Ef þú vilt þéttari fyllingu geturðu hrært einu eggi út í að lokum
  6. Ef notast er við beikon, skerðu niður í bita og steiktu á pönnu áður en þú bætir út í fyllinguna 
  7. Fyllingin má fara beint í kalkúninn eða í eldfast mót og inn í ofn í 25-30 mínútur við 180 gráður 

Njótið vel og gleðilega Þakkargjörðarhátíð!