Fara í efni

Um GÆÐI og gjörvileika

12.10.2018

Fyrirtæki sem rækja hlutverk sitt af ábyrgð í samfélaginu geta þurft, með hjálp góðs starfsfólks, að skilgreina og taka afstöðu til ýmissa mála. Samfélag nútímans byggir að verulegu leyti á því að fólk geti jafnt aflað sér upplýsinga um vörur og þjónustu sem réttindi sín og skyldur. Veraldarvefurinn og fjölmiðlar eru þar öflugustu tæki nútímans, og þau mikilvægustu. 

Án málfrelsis eru engin sjónarmið
Þann 10. júlí féll dómur hjá Mannréttindadómstól Evrópu sem hnekkir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli tveggja íslenskra blaðamanna sem hlutu dóm fyrir meiðyrði eftir að hafa ummæli beint eftir viðmælendum. Margir urðu hvumsa á sínum tíma þegar Hæstiréttur dæmdi blaðamennina seka og eflaust hafa allir góðir og gegnir menn haldið í þá von að málinu yrði áfrýjað til Mannréttindadómstólsins og ranglætið leiðrétt. Það varð raunin og niðurstöðunni ber að fagna því nú er ekkert því til fyrirstöðu að íslenskir blaðamenn geti sinnt störfum sínum af fagmennsku með tjáningarfrelsið að vopni. 
Sú samvirkni sem hlýst af samskiptum fjölmiðla, fyrirtækja og neytenda er dýrmæt. Gagnrýni fjölmiðla á ýmis fyrirtæki er ekki af hinu slæma þegar um gagnlega rýni að ræða. Hún gagnast þó aðeins þeim sem hafa siðferðilegt þrek og faglega kunnáttu til þess að taka ábendingum og reyna sífellt að bæta starfsemina. Þetta er skoðun Myllunnar.

Íslenskt framleiðslufyrirtæki eins og Myllan rækir sitt hlutverk í íslensku samfélagi af ábyrgð og stólar á að íslenskir fjölmiðlar geri slíkt hið sama. Aðeins með því að starfa af ábyrgð geta fyrirtæki sem bjóða góða vöru á góðu verði skarað fram úr og aðeins með áhuga neytenda og fjölmiðla er hægt að halda skussunum í skefjum. Töluvert var um undarlegar rekstrarforsendur á árunum fyrir hrun og því er ljóst að ekki hefur alltaf tekist hjá íslenskum fyrirtækjum að rækja hlutverk sitt af ábyrgð, eins og hrunið leiddi í ljós. En aukinn áhugi á því sem íslensk fyrirtæki hafa fyrir stafni er mögulega jákvæð afleiðing hrunsins.

Stundum kemur fyrir að fjölmiðlar eru notaðir sem svipa á fyrirtæki, til dæmis af neytanda sem hefur upplifað slæma þjónustu eða fengið vöru sem ekki er eins og hún á að vera. Slíkt kemur fyrir í öllum fyrirtækjum og hlutverk gæðaeftirlits er að nýta slíkar upplýsingar til að auka öryggi framleiðslunnar. Án gæðaeftirlits kæmu slík mál ekki upp á yfirborðið og vinnubrögðin yrðu ekki bætt. 

Öll fyrirtæki sem taka sig alvarlega óttast því ekki fjölmiðla því augljóst er að hlutverk fjölmiðla er að upplýsa, leita upplýsinga og sjónarmiða. Fjölmiðlar eru því tækifæri fyrirtækja til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, sjónarmiðum sem verður gert hátt undir höfði ef þau eiga rétt á sér.

Sjónarmið eru mismunandi og hver og einn verður að eiga við sjálfan sig hvernig hann eða hún tekur þeim. Það er á grundvelli heilbrigðra og staðfastra sjónarmiða sem afreksfyrirtæki verða til – annað leiðarval er aðeins til skamms tíma. Fjölmiðlar eru besta leiðin til að koma sjónarmiðum á framfæri. Fjölmiðlar eru því góðir fyrir góð fyrirtæki. Staðfestan er nauðsynleg til að láta ekki kúga sig til að breyta á annan hátt en samviskan býður, jafnvel þótt svipan sé á lofti. Í tilefni af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu fagnar Myllan þeim áfanga að íslenskir blaðamenn geti áfram sinnt sínum störfum af fagmennsku, þegnum landsins og neytendum til góðs. 

Við leggjum mikla vinnu í að miðla upplýsingum
Myllan mun halda áfram að veita upplýsingar um vörur og þjónustu, í trausti þess að sjónarmið fyrirtækisins heyrist og séu metin, svo lengi sem fyrirtækið á vísan sess í íslensku samfélagi. Þetta gerir Myllan með því að vera í góðum samskiptum við viðskiptavini sína og stuðla að fræðslu um hráefni og vörur fyrirtækisins á www.myllan.is og á Facebook.

Fjölmiðlar er því góðir fyrir góð fyrirtæki. Góð fyrirtæki eru góð fyrir góða fjölmiðla. Hvorttveggja er gott fyrir gott samfélag, og auðvitað neytendur sjálfa.

Það er sitthvað gæfa og gjörvileiki en GÆÐI og gjörvileiki eru okkar eigin verk. Það er loforð okkar til neytenda að við vöndum okkur við okkar verk, og höldum ykkur upplýstum um hvað við erum að gera... og hugsa.