Fara í efni

Vissir þú þetta um bláu jólatertuna?

28.10.2022

Vissir þú þetta um bláu jólatertuna?

Nú eru jólaterturnar komnar í allar helstu verslanir landsins enda var dagur jólatertunnar mánudagurinn 24. október. Við tökum þennan dag mjög hátíðlega eins og aðdáendur jólatertunnar gera líka.

Í tengslum við dag jólatertunnar höfum við verið að spyrja hvaða jólatertu fólk sé hrifnast af og hvað fólk vilji drekka með jólatertunni sinni og sitt sýnist hverjum. Það kemur kannski ekki á óvart að sú sígilda, græna jólatertan, er vinsælust.

Röðun jólatertanna þar á eftir á það hinsvegar til að skipa fólki í mismunandi flokka. Í nýlegri og mjög óformlegri skoðanakönnun okkar kom í ljós að sú bláa átti sér fæsta fylgjendur og okkur langar því að rýna aðeins betur í gæði hennar og sjá hvort hún eigi sér ekki í raun fleiri fylgjendur í felum.

Sú bláa hlaut 13% atkvæðanna í óformlegu skoðanakönnuninni okkar. Það er ekki slæmt þegar haft er í huga að sú vinsælasta, sú græna, rakaði til sín heilum 47% atkvæða.

En sú bláa á örugglega meira inni. Hún er rammíslensk hvít jólaterta með rabarbarasultu sem er vinsæl íslensk sulta. Ef til vill er það drykkirnir með þeirri bláu sem eru að vefjast fyrir fólki en rabarbarasultan krefst dálítið bragðmikilla drykkja til að njóta sín sem best. Og kannski vissu það ekki öll.

Pörun matar og drykkja er orðin nokkuð vinsæl á Íslandi og þarna er ef til vill tækifæri til að ota þeirri bláu betur að fólki, það er með því að rýna dálítið í hvaða drykkir henta best. Okkar niðurstaða er sú að í óáfengu deildinni séu það drykkir eins og óáfengur pilsner með miklu af humlum eða ávaxta keim sem hentar best. Í áfengu deildinni eru það hinsvegar púrtvín og Sauternes hvítvín sem eru töluvert sæt sem henta best. Freyðivín, óáfengt eða áfengt er líka sérlega góður kostur.

Nú er bara að prófa og sjá hvort að sú bláa nái ekki auknum vinsældum.