Fara í efni

Spelt eða hveiti

27.11.2018

Epli eru ekki bara epli. Í daglegu tali flokkum við þau sem græn, gul og rauð en innan þeirrar flokkunar eru síðan fleiri tegundir. Á sama hátt eru margar tegundir til af hveiti og sú tegund sem mest hefur verið notuð í bakstur nefnist í flokkunarkerfi lífvera Triticum aestivum. Önnur tegund af hveiti sem mikið hefur verið á heilsuvörumarkaðnum síðustu ár er kölluð í daglegu tali spelt og nefnist Triticum spelta í flokkunarkerfinu. Þegar spelt kom á markaðinn var fullyrt að þeir sem hefðu ofnæmi fyrir hveiti og einnig þeir sem eru með glútenóþol (celiac sjúkdóm) myndu þola spelt. Einstaklingar með glútenóþol, sem prófuðu þessa vöru, komust fljótt að því að þessi fullyrðing stóðst engan veginn.

Einstaklingar með fæðuofnæmi þola ekki ákveðnar próteinsameindir í matnum og á það einnig við um þá sem eru með glútenóþol. Munur getur verið á innihaldi einstakra próteina í mismunandi tegundum matvæla eins og t.d. hveitis. Áður en hægt er að fullyrða að matvara valdi síður ofnæmi en önnur svipuð matvara þurfa að liggja fyrir rannsóknir um hvaða próteinsameindir valda ofnæmi og magn þeirra í mismunandi tegundum. Rannsóknir á venjulegu hveiti og spelti sýna að þau innihalda svipuð prótein og rannsóknir á einstaklingum með glútenóþol sýna einnig að þeir þola hvorki hveiti né spelt. Samkvæmt reglugerð um merkingu matvæla á að merkja skýrt þær fæðutegundir sem geta valdið fæðuofnæmi. Þar á meðal er hveiti. Þegar hveiti er merkt sem spelt á innihaldslýsingu getur það villt um fyrir neytendum sem hafa ofnæmi fyrir hveiti. Þetta þurfa matvælaframleiðendur og eftirlitsaðilar að hafa í huga.

Þegar spelt kom fyrst á markað var eingöngu boðið upp á gróft spelt sem samsvarar heilhveiti. Því má segja að þeir sem kusu brauð og annan bakstur úr speltmjöli borðuðu oft grófari brauð en ella og þar með trefjaríkari. Í dag er aftur á móti hægt að fá bæði gróf speltbrauð og brauð bökuð með hvítu speltmjöli. Þeir sem velja speltbrauð í dag fá því ekki alltaf gróf brauð eins og fyrst eftir að þessi mjöltegund varð vinsæl. Fjölbreytni í fæðuvali er forsenda þess að við fáum í okkur þau næringarefni sem við þurfum á að halda. Oft mætti fólk hafa þetta í huga þegar valið stendur um mismunandi brauðtegundir. Best er að velja grófari tegundirnar en einnig eykur það fjölbreytnina að velja brauð sem bökuð eru með öðru mjöli eins og rúgi, höfrum og byggi.

Kolbrún Einarsdóttir
Næringarráðgjafi

Kolbrún Einarsdóttir skrifaði greinina ,,Spelt eða hveiti'' en hún birtist í Fréttablaðinu, 1.maí 2008-118. tölublað - 8.árgangur, bls 22.