Fara í efni

Græjaðu djúsí pöbbaborgara með kartöflubrauði

29.04.2022

Grilltímabilið er komið og græjurnar komnar út á svalir tilbúnar fyrir ljúffengar grilluppskriftir. Einn mesti lúxus sem hægt er að veita sér á virkum degi er safaríkur og vandaður hamborgari, framreiddur í dúnmjúku kartöfluhamborgarabrauði frá Myllunni. Hér er því uppskrift sem hentar vel í bjartviðri sem dumbungi.

Flest kaupum við tilbúið hamborgarabuff út í næstu verslun eða kjötbúð og er almennt mælt með því að nota feitari borgara við grillun á eldi til að halda kjötinu sem safaríkustu. Þá er auðvitað líka hægt að kaupa í kjötbúðum rib eye borgara sem eru með fituríku kjöti, eða bara að láta hakka fyrir sig það stykki sem manni lýst vel á og búa til eigið buff sem væri þá hrært saman með eggjum, brauðmylsnu, sítrónupipar og salti. Við mælum með 180-200 gramma buffum þar sem þau eru viðráðanlegri á grillinu og hanga betur saman þegar þeim er snúið.

En hér er uppskriftin að okkar pöbbaborgara með súrum gúrkum, og að sjálfsögðu í kartöfluhamborgarabrauði:

 • 4 hamborgarabuff eftir smekk hvers og eins
 • 4 kartöfluhamborgarabrauð frá Myllunni
 • 1 kúrbítur (zucchini) þunnt skorinn
 • Salt
 • Pipar
 • 4 ferskir chili, skornir í strimla
 • Smjörklípa
 • 4 matskeiðar af majónesi
 • 200 grömm af klettasalati
 • 8 sneiðar af þykku beikoni
 • Parmesan, skorinn í nokkrar þunnar sneiðar fyrir hvern borgara
 • Annar ostur að eigin vali
 • Tómatsósa
 • Súrsaðar gúrkur eftir smekk
 • 2 tómatar
 • 1 laukur

Ef hungrið er mikið þá er kjörið að skella frönskum kartöflum í ofninn áður en farið er út með buffin á grillið. En þetta er matarmikil máltíð og ekki þörf á frönskum með.

Saltið kúrbítinn til að draga dálítið af vatninu úr honum og grillið svo þangað til hann er gullinn á báðum hliðum. Setjið svo til hliðar.

Steikið chili á pönnu með klípu af smjöri, með fræjunum ef þið viljið hafa þetta sterkt. Gætið þess að þeir brenni ekki. Setjið svo til hliðar.

Grillið hamborgarabuffin á háum hita í byrjun til að loka þeim á báðum hliðum. Þegar hamborgaranum er snúið eru ostarnir settir á. Þegar kjötsafinn byrjar aðeins að sjást í buffinu í gegnum ostinn er tímabært að taka hamborgarana af, fyrr ef þið viljið þá minna grillaða.

Grillið beikonið til hliðar við hamborgarana á fremur lágum hita og gætið þess vel að ekki kvikni í fitunni.

 

Smyrjið majónesinu á neðri botn kartöfluhamborgarabrauðsins, tómasósunni á lokið og raðið svo meðlætinu á botninn fyrir utan klettasalatið sem fer ofan á með beikoninu.

Tilvalið er að para pöbbaborgarann með góðu fölöli (Pale Ale) eða jafnvel rauðöli eða mildum stout. Til eru góðir óáfengir fölölsdrykkir fyrir þá sem það kjósa í næstu verslun. Góð pörun í gosi gæti verið engifergos eða kóladrykkur.

Bingó - alvöru pöbbaborgari, njótið!