Fara í efni

Íslensk kjötsúpa með Lífskornsbollu

04.09.2023

Þegar hausta tekur vita flestir að tími kjötsúpunnar nálgast. Haustið er huggulegt þegar byrjar að rökkva og að búa til rjúkandi heita og matarmikla súpu fylgir yfirleitt þessum árstíma. Það er einnig gömul og góð hefð að fagna haustinu og vetrarkomunni með kjötsúpu, enda er haustið uppskerutími þar sem nóg er til af nýju lambakjöti og fersku grænmeti.

Mörgum finnst kjötsúpan vera gott dæmi um hefðbundna íslenska matargerð og oftar en ekki þegar Íslendingar erlendis eiga að kynna sína matargerð fyrir útlendingum elda þeir gjarnan kjötsúpu.

Það sem fæstir vita er að fyrr á tíðum var kjötsúpa oft sunnudags- eða veislumatur og stundum jólamatur, en nú til dags er hún fremur hversdagsmatur og hægt að fá hana keypta sem pakkasúpu.

Kjötsúpa

Kjötsúpa er matarmikil súpa úr lambakjöti og grænmeti. Algengast er að í súpunni séu kartöflur, gulrófur og gulrætur en aðrar grænmetistegundir eru einnig notaðar, svo sem laukur og blaðlaukur. Kjötsúpan er oft bragðbætt með þurrkuðum súpujurtum og kjötkrafti, auk þess eru oft notuð grjón í súpuna, svo sem hrísgrjón, hafragrjón eða bygggrjón.

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins, en allir eiga sína uppáhalds útfærslu. Kjötsúpan, uppskriftirnar, hefðirnar og leynihráefnin leynast í hverju eldhúsi sem gerir súpuna einstaka fyrir þann sem hana eldar. Við hjá Myllunni viljum færa þér einfalda og góða uppskrift af íslenskri kjötsúpu sem þú getur töfrað fram fyrir þig og þína til að njóta í haust.

Kjötsúpu uppskrift

3 l. vatn

2,5 kg. súpukjöt á beini

400 gr. rófur

400 gr. kartöflur

200 gr. gulrætur

50 gr. hrísgrjón

1 stk. laukur

5 sm. biti blaðlaukur

 5 msk. súpujurtir

2 stk. kjötkraftsteningar

2 msk. salt (magn fer eftir smekk)

 Svartur pipar (magn fer eftir smekk)

Aðferð:

  1. Skolið kjötið og setjið í pott með vatninu, setjið yfir meðalhita og leyfið suðunni að koma upp.
  2. Þegar suðan er komin upp er gott að fleyta froðuna og hluta fitunnar og fjarlægja úr pottinum.
  3. Skerið grænmetið í fremur grófa bita og setjið í pottinn ásamt súpujurtunum, hrísgrjónunum og kjötkraftsteningunum og sjóðið í u.þ.b. 50 mín.
  4. Smakkið til með salti og pipar.

Súpubrauðið

Við mælum með hollu og bragðgóðu Lífskornabollunum með heilum hveitikornum og rúgi með kjötsúpunni þinni. Lífskorn færir þér máltíð af akrinum og þú færð kjörið tækifæri til að safna góðri orku og öðlast góða næringu. Þú getur valið um Lífskornabollur með tröllahöfrum og chia-fræ og Lífskornabollur með heilu hveitikorn og rúg.

Gerðu vel við þig og þína og gríptu bragðgóðu og hollu Lífskornabollurnar næst þegar þú ferð í verslun og njóttu með súpunni.