Fara í efni

Hygmyndabanki íslensku beyglunnar

03.03.2023

Íslenska beyglan er komin í verslanir og við hjá Myllunni höldum áfram með hugmyndabanka íslensku beyglunnar, því það jafnast fátt á við nýjar og einfaldar hugmyndir að bragðgóðum beyglumáltíðum. Við höfum nú þegar komið fram með uppskriftir fyrir litla fólkið á heimilinu og yngri kynslóðina, en að þessu sinni hugum við að föstudagskvöldinu.

Föstudagskvöld eru oft róleg og kærkomin samverustund. Vinnu- og skólavikan er á enda og kærkomið helgarfrí er í vændum. Við viljum því bjóða upp á hugmyndir að þriggja rétta beyglumáltíð sem hentar öllum.

Samsölu beyglurnar frá Myllunni eru fyrir margra hluta sakir þægilegar þar sem það er hægt að eiga þær í frysti og grípa til þeirra og leyfa einfaldleikanum í eldamennskunni að ráða för. Eitt sem við viljum benda á þegar er verið að bjóða upp á beyglur er að ekki nota beitt áhald til að aðskilja helminga beyglunnar. Best er að þíða beygluna við stofuhita í 20 til 30 mínútur eða lengur áður en helmingar eru aðskildir og beyglan ristuð, það er einnig hægt að setja beygluna í örbylgjuofn á affrystistillingu í u.þ.b. 20 sekúndur (misjafnt eftir ofnum).

Hugmynd fyrir beyglu með jalapeno og osti

Svepperóni beygla

  • 1 beygla með jalapeno og osti
  • 6 matskeiðar pizzusósa
  • 20 pepperóní sneiðar
  • 5 sveppir
  • Rifinn ostur
  • Óreganó krydd

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 200 gráður (blástursofn)
  2. Takið beygluna varlega í sundur og smyrjið báða beygluhelmingana með pizzusósunni
  3. Raðið pepperóní sneiðunum á báða beygluhelmingana
  4. Skerið niður sveppina í sneiðar og dreifið þeim á báða beygluhelmingana
  5. Dreifið ostinum yfir báða beygluhelmingana
  6. Setjið báða beygluhelmingana á smjörpappír og bakið í ofninum í u.þ.b. 15 mínútur
  7. Takið beygluhelmingana út þegar þeir eru orðnir tilbúnir og stráið óreganóinu yfir

Hugmynd fyrir beyglu með hörfræjum, sesam og birki

Hvítlauksbitar

  • 1 beygla með hörfræjum, sesam og birki
  • 4 matskeiðar íslenskt smjör
  • 2 marin hvítlauksrif
  • ½ teskeið sjávarsalt
  • 1 matskeið steinselja smátt söxuð
  • Parmesanostur (eða hvaða ostur sem hentar hverju sinni)

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 200 gráður (blástursofn)
  2. Blandið saman smjörinu, hvítlauknum, sjávarsaltinu og steinseljunni og leggið til hliðar
  3. Takið beygluna varlega í sundur og skerið niður hvern beygluhelming í fjóra bita
  4. Smyrjið bitana með smjörinu (hliðarnar líka) og stráið parmesanostinum yfir
  5. Leggið bitana á smjörpappír og bakið í ofninum í u.þ.b. 10 mínútur
  6. Þegar bitarnir eru tilbúnir eru þeir teknir út og bornir fram

Hugmynd fyrir fína beyglu

Vöfflubeygla

  • 1 fín beygla
  • 1 matskeið íslenskt smjör
  • ½ askja jarðarber
  • ½ askja bláber
  • Síróp (magn fer eftir smekk)

Aðferð:

  1. Takið fram vöfflujárn og hitið það upp
  2. Takið beygluna varlega í sundur
  3. Smyrjið báðar hliðar á beyglunni með smjörinu
  4. Skerið ávextina í litla bita og setjið þá til hliðar
  5. Setjið einn beygluhelminginn á vöfflujárnið og þrýstið niður, haldið niðri í u.þ.b. eina mínútu og endurtakið við hinn beygluhelminginn
  6. Dreifið ávöxtunum yfir og í lokaskrefinu er síropinu hellt yfir

Berið fram með nóg af servíettum og njótið!